Greinar

Rennsli í ám á Íslandi sumarið 2012

Rennsli sumarið 2012 borið saman við rennsli undanfarin ár

20.7.2012

Sumarið 2012 hefur verið sólríkt og úrkoma lítil um allt land. Samkvæmt þessari lýsingu mætti draga þá ályktun að dragár og lindár væru vatnslitlar en jökulár vatnsmiklar og grunnvatnsstaða lág. Hins vegar eru mörg önnur atriði sem hafa einnig áhrif á vatnsbúskapinn hverju sinni. Þrátt fyrir hlýtt og gott veður í byggð hefur heiðskírt veður valdið litlum næturhita á hálendi og jafnvel næturfrosti. Jökulleysing sem hefst að jafnaði í júlí er ekki orðin mikil enn og rennsli við vatnshæðarmæla sem eru nærri jökli er rétt í meðallagi.

Skaftá við Sveinstind
Mynd 1. Rennsli í Skaftá við Sveinstind sumurin 2010 (bleikt), 2011 (brúnt) og 2012 (svart).

Rennsli í Skaftá er minna en síðustu tvö sumur á undan, sjá mynd 1. Sumarið 2010 var mikil jökulbráð vegna ösku og þá voru líka tvö Skaftárhlaup. Fyrir utan það, hafa langtímbreytingar í veðurfari veruleg áhrif á vatnsbúskapinn og rennsli í jökulám hefur aukist síðustu ár. Rennslið í sumar borið saman við síðasta áratug er sýnt á mynd 2. Áratuginn þar á undan var það minna. Nú er búist við hlaupi úr stærri katlinum á hverri stundu.

Rennslisferlar júní til september
Mynd 2. Rennslisferlar júní til september frá árinu 2000. Hlaupin skaga upp úr. Árið 2012 svart.

Fyrstu þrír mánuðir þessa árs voru hlýir og úrkomusamir. Síðla vetrar snjóaði mikið í fjöll og kemur leysing þess snævar fram sem mikil rennslisaukning um allt land á heitum dögum í síðustu viku maí.

Rennsli Norðurár í Borgarfirði var meira nú framan af sumri en sumarið 2010 sem var afbrigðilega þurrt. Ástæðan var bráðnun snævar af heiðunum, sjá mynd 3. Þessa dagana fellur línuritið saman við línuritið frá hinu einstaka þurrkasumri 2010.

Norðurá við Stekk
Mynd 3. Vatnshæð við mælinn í Norðurá við Stekk frá maí til loka ágúst síðustu þrjú sumur. Þessa dagana er rennslið orðið jafnlítið og á sumrinu 2010.
Heiðmörk undir Berhóli
Mynd 4. Grunnvatnsstaða í Heiðmörk undir Berhóli september til júlí árin 2010, 2011 og 2012. Yfirstandandi ár (2012) er táknað með svartri línu.

Grunnvatnsstaða í Heiðmörk er nú nokkru hærri en á sama tíma undanfarin tvö ár, sjá mynd 4. Árið 2010 var hún með allra lægsta móti. Hin mikla úrkoma eftir áramót veturinn 2011/2012 hækkaði grunnvatnsstöðuna mikið. Það tíðarfar hefur haft svipuð áhrif á grunnvatnsstöðu á Suður- og Vesturlandi sem birtist í því að rennsli í ám eins og Ytri-Rangá og Tungufljóti í Biskupstungum, sem eru nær eingöngu lindár, er enn yfir rennsli síðustu ára, samanber myndir 5 og 6. Grunnvatnið sem myndar að stórum hluta þessar ár er upprunnið að hluta undan jöklum.

Ytri-Rangá
Mynd 5. Rennsli í Ytri-Rangá er háð grunnvatnsstöðu. Vatnsárið 2011/2012 svart (vatnshæð 2012 óyfirfarin). Rennslið endurspeglar úrkomusaman vetur 2011/2012.
Tungufljót í Biskupstungum
Mynd 6. Rennsli í Tungufljóti í Biskupstungum sem er háð grunnvatnsstöðu er meira en síðustu tvö ár.
Svartá í Skagafirði
Mynd 7. Svartá í Skagafirði síðla vetrar síðustu fimm ár. Árið 2012 blátt en 2010 ljósbrúnt.

Svartá í Skagafirði, mynd 7 hér að ofan. Vorleysing í síðustu viku maí og áin er ekki vatnslítil enn. Áin var vatnsmikil á úrkomusömum vetrinum.

Fossá í Berufirði
Mynd 8. Fossá í Berufirði (vatnshæð frá 22. apríl). Mjög lítið hefur verið í ánni í sumar eftir vorleysingar síðast í maí.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica