Greinar
mælaskýli á árbakka
Brunnmælir á eystri bakka Ölfusár, skammt neðan brúar við Selfoss. Stefnt er að því að varðveita hann í þeirri mynd sem hann er.
1 2
næsta

Vatnshæðarmælir í Ölfusá

Sextíu ára sírituð og samfelld vatnshæðar- og rennslisgögn

19.6.2011

Fyrstu rennslismælingar á íslenskum ám voru gerðar af norska jarðfræðingnum Amund Helland árið 1881. Mælt var í fyrsta sinn fyrir rafmagnsvirkjun í Elliðaánum 21. október 1894.

Lengsta samfellda rennslisröð sem til er á Íslandi er frá Svartá í Skagafirði síðan 1929. Hún byggist á kvarðaálestrum tvisvar í viku til 22. september 1962 en þá var reistur þar síriti.

Vatnshæðarmælir nr. 64 er brunnmælir á eystri bakka Ölfusár, skammt neðan brúar við Selfoss. Daglegur kvarðaálestur hófst 6. október 1950. Hinn 27. júní 1951 hóf þar skráningu síriti af sænskri gerð og var það fyrsti síritandi vatnshæðarmælir sem settur var upp á Íslandi. Árið 1964 var mælistöðin endurbyggð og settur upp síriti af gerðinni A. Ott. Hins vegar sópuðust mælishús, tæki og efsti hluti brunns burt í stóra febrúarflóðinu 1968 en mælirinn var lagfærður í marsmánuði sama ár.

Hinn 2. júlí 1999 var tekin upp ný tækni við vatnshæðarmælinguna. Þrýstiskynjara, sem tengdur er stafrænu skráningartæki, var komið fyrir í brunninum og mælirinn símatengdur. Hinn 16. október 2001 var gamla pappírsskráningartækið lagt niður og er stafræna skráningartækið nú eitt um að skrá vatnsborð Ölfusár.

Vegna þess að þetta er fyrsti síriti á Íslandi stefnir Veðurstofan að því að varðveita hann í þeirri mynd sem hann er. Torfhleðslan var endurhlaðin 1991 og lagfærð árið 2011. Húsið var gert upp árið 2008. Eftirfarandi teikning sýnir innviði slíks mælis.

teikning - skema

Hinn 3. maí 2005 var byrjað að mæla leiðni og vatnshita við síritann í Ölfusá til öflunar grunnupplýsinga. Finna má samtíma upplýsingar um vatnshæð, rennsli, leiðni og vatnshita frá mælistöðinni á vef Veðurstofu Íslands (sjá vöktunarkerfið). Þessari grein fylgir dæmi um tveggja vikna gögn frá Ölfusá við Selfoss (6. - 20. júní 2011).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica