Viðvörunarstig eldstöðva

Viðvörunarstig eldstöðvakerfis

Viðvörunarstig eldstöðvakerfis (e. Volcano Alert Level System – VALS) er nýtt kerfi sem er í þróun á Veðurstofu Íslands. Kerfinu er ætlað að miðla á einfaldan hátt upplýsingum um virkni í eldstöðvakerfum á Íslandi, hvort breyting eigi sér stað á virkninni og hugsanlegar hættur samfara virkninni sem hafa áhrif í nærumhverfi eldstöðva.

Kerfið byggir á tiltækum vöktunargögnum, túlkun á jarðeðlisfræðilegum og jarðefnafræðilegum gögnum, reynslu sérfræðinga af fyrri umbrotatímum og þekkingu á eldgosum fortíðar.

Litakóðaðar viðvaranir

VALS-kerfið er fjögurra þrepa kerfi sem fer frá stigi 0 (grænt) upp í 3 (rautt). Stig 0 er lægsta viðvörunarstigið. Breytingar á vöktunargögnum teljast þá innan þeirra marka sem öllu jafn sjást þegar eldstöðvakerfi er í jafnvægi. Stig 1 og Stig 2 eru millistig sem samsvara virkni sem er utan við jafnvægismörk eldstöðvakerfis. Stig 2 endurspeglar aukinn fjölda vísbendinga um yfirvofandi eldgos og hraðari breytingar í vöktunargögnum Stig 3, hæsta stigið, samsvarar ástandi þar sem eldgos er yfirvofandi eða yfirstandandi.

Haettumat_Mynd2_V2

Tengsl viðvörunarstigs og ástands eldstöðvar

Fyrir hvert viðvörunarstig eru hættur skilgreindar og taldar upp. Hættur sem unnið er með í hvert skipti eru háðar því eldstöðvakerfi sem um ræðir og lýsa þeim fyrirbærum sem gætu átt sér stað í nágrenni og umhverfi þess (óháð fjarlægð og/eða stefnu). Þó svo að viðvörunarstig sé 0, getur náttúruvá verið til staðar á svæðinu og hætta getur þróast innan óskilgreinds tímaramma.  Eldfjallahættur (og eldgos) geta átt sér stað án viðvörunar. Þannig gæti eldstöðvakerfi farið af vöktunarstigi 1 beint yfir á vöktunarstig 3.

Munur á milli fluglitakóða og viðvörunarstigs eldstöðvakerfis

Áður hefur Veðurstofan gefið út fluglitakóða fyrireldstöðvar landsins. Sá litakóði er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldstöðva sem gætu haft áhrif á flugumferð. Nýja kerfinu er ætlað að miðla upplýsingum sem hefðu mögulega áhrif á jörðu niðri. Það er mikilvægt að átta sig á því að þessir tveir litakóðar geta verið mismunandi á hverjum tíma.

Dæmi um notkun viðvörunarstigs eldstöðvakerfis

Í hættumati vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga er birt viðvörunarstig fyrir eldstöðvakerfið „Reykjanes/Svartsengi“. Í dæminu hér að neðan er viðvörunarstigið „2 – Töluvert aukin virkni (appelsínugulur)“. (Sjá merkingu inni í bláa kassanum).

Haettumat_Daemi_VALS

Fyrir eldstöðvakerfi Svartsengis er unnið með sjö hættur: 1) jarðskjálftavirkni, 2) jarðfall, 3) sprunguhreyfingar, 4) gosopnun, 5) hraunflæði, 6) gjóskufall og 7) gasmengun.

Tegund gagna sem notuð er, og vægi þeirra, stjórnast af viðvörunarstigi eldstöðvar í hvert sinn. Hættumatskort er ekki unnið þegar viðvörunarstig eldstöðvar er 0. Taflan hér að neðan sýnir hvernig hættumat vegna hraunavár breytist eftir viðvörunarstigi eldstöðvar

Haettumat_Tafla2

Tafla sem sýnir tegund gagna og vægi sem fylgir viðvörunarstigi eldstöðvar. Taflan sýnir hvernig tegund inntaksgagna vegna hraunavár og vægi þeirra breytist með viðvörunarstigi.


Til baka, Senda grein, Prenta greinina

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica