Veðurfarshópur
Á undanförnum árum hefur verið unnið að niðurkvörðun veðurfars og greiningu. Þróunin hefur verið sú að á hverju ári hefur verið unnið með loftlagslíkön þar sem reikninetið þéttara en áður, og endurspeglar því raunverulegt landslag á Íslandi betur. Þannig var skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar (Umhverfisráðuneytið, 2008) byggð á niðurstöðum hnattrænna loftlagslíkana þar sem möskvastærð reikninetsins var á bilinu 100 - 300 km. Síðan þá hefur verið unnið úr aflrænum niðurkvörðunum (þ.e. úr niðurstöðum þar sem reiknað er með svæðisbundnu loftslagslíkani fyrir takmarkað svæði en með þéttu reiknineti). Sem hluti af CES og LOKS verkefninu var á árunum 2009 og 2010 unnið úr niðurkvörðunum ENSEMBLES verkefnisins þar sem möskvastærð reikninetsins var um 25km. Niðurstaða þessara vinnu var að líklegar breytingar í yfirborðshita og úrkomu væru trúverðugri í líkönum þar sem reikninetið væri nægilega þétt til að árhif landslags kæmu fram (N. Nawri og H. Björnsson, Veðurstofa Íslands 2010), en einnig komu í ljós að þar sem Ísland var á jaðri reiknisvæðis ENSEMBLES líkananna voru niðurstöður hér óáreiðanlegri en í mið-Evrópu.
Samhliða þessari vinnu var unnið að því að betrumbæta niðurkvarðanirnar með því að beita veðurspálíkaninu WRF til að niðurkvarða reikninga loftslagslíkans, og tryggja að upplausn reikninetsins væri nægileg auk þess sem Ísland væri ekki á jaðri reiknisvæðisins. Þessum útreikningum var lokið á árinu 2010, en í þeim er fyrst reiknuð 30 ára viðmiðunarkeyrsla (1961 - 1990) og svo 31 árs sviðsmyndarkeyrsla (2020 - 2051). Þetta var gert fyrir Norður Atlantshafið með 27 km reiknineti, fyrir svæði sem samsvarar því sem VÍ kallar "landið og miðin" með um 9 km reiknineti, og fyrir Ísland með 3 km reiknineti. Auk þessa hefur lofthjúpsgreining Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar í Reading (ECMWF) verið kvörðuð niður á 27 og 9 km reikninet fyrir tímabilið frá september 1957 til september 2009. Ennfremur var tímabilið frá september 1994 til september 2009 kvarðað niður á 3 km reikninet og loks fyrir afmarkað svæði á suðurhluta landsins með 1 km upplausn fyrir skemmra tímabil (Ólafur Rögnvaldsson ofl. 2011). Heildarmagn reiknigagna er um 20.000 Gígabæti, sem er margfalt meira gagnamagn en áður hefur verið notað til að meta áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Þessar reikniniðurstöður munu veitt nýja sýn á líklegar loftsagsbreytingar, og auðvelda óvissumat á reikningum með gisnu reiknineti (sjá t.d. Ólafur Rögnvaldsson o.fl. 2010).
Árið 2011 verður unnið úr ofangreindum niðurkvörðunum og útreikningar bornir saman við LT-úrkomulíkanið (Crochet ofl 2007). Í tengslum við niðurkvörðunina verða könnuð tengsl hlýnunar og aftakaatburða (ofviðra, flóða) og lagt mat á hugsanlegar breytingar á tíðni slíkra atburða í framtíðarveðurfari. Einnig verða skoðaðar breytingar á árstíðasveiflu og dægursveiflu lofthita sem og breytingum á tíðni veðrakafla þar sem skiptast frost og þíða, sem eru þættir sem geta haft áhrif á hönnunarforsendur vega.