Afrennslishópur
Í afrennslisþættinum er unnið að endurbótum á afrennsliskorti fyrir Ísland og reiknaðar afrennslisbreytingar sem svara til sviðsmynda um loftslagsbreytingar. Einnig verða rannsakaðar árstíða- og dægursveiflur í afrennsli frá jöklum og hugsanlegar breytingar á þeim. Markmiðið er að leggja mat á breytingar á rennslisháttum vatnafalla á landinu af völdum loftslagsbreytinga. Notast verður við WASiM afrennslislíkanið, sem sett var upp og kvarðað í fyrri verkefnum. Sérstök áhersla er á kvörðun grunnvatnshluta líkansins og á áhrif mismunandi reikniupplausnar veðurlíkana á niðurstöður afrennslisreikninga.
Á árinu 2009 var unnið að því að bæta aðferðafræðina við notkun WaSiM líkansins. Í upphafi þess árs var tekin sú ákvörðun að uppfæra líkanið í útgáfu 8.4, sem felur í sér töluverðar endurbætur frá eldri gerð (útgáfu 6.4). Ein veigamesta endurbótin er sú að grunnvatnshluti líkansins hefur verið bættur. Var grunnvatnshlutinn virkjaður fyrir vatnasvið vatnshæðarmælis 144 við Skatastaði í Austari-Jökulsá í Skagafirði og líkanið síðan endurkvarðað. Með virkjun grunnvatnshlutans eykst fylgni milli mældra og reiknaðra gagna auk þess sem stuðlar líkansins verða raunsærri. Á árinu 2009 var einnig hafist handa við endurkvörðun líkansins og virkjun grunnvatnshluta þess.
Á árinu 2010 voru Sandá í Öxarfirði og Brúará bornar saman vegna kvörðunar og virkjunar grunnvatnshluta líkansins. Að loknum þeim samanburði var ákveðið var að nota Sandá til kvörðunar frekar en Brúarár þar sem áhrifa jökuls gætir í grunnrennsli Brúarár en ekki á vatnasviði Sandár. Unnið var að því að bæta aðferðafræði við notkun WaSiM líkansins enn frekar. Framtíðar-sviðsmyndir afrennslis fyrir tímabilið 2021-2050 voru unnar fyrir Sandá og Austari-Jökulsá. Vatnasviðin bregðast ólíkt við hlýnun og breyttu veðurfari þar sem veðurfar og vatnafræðilegir eiginleikar berggrunns á þessum vatnasviðum eru mismunandi auk þess að hluti vatnasviðs Austari-Jökulsár er hulinn jökli. Unnið var að rannsóknum á árstíðarsveiflu í afrennsli frá Hofsjökli og hugsanlegum breytingum á þeim.
Á árinu 2011 verður rannsóknum á árstíðarsveiflum og dægursveiflu í afrennsli frá Hofsjökli haldið áfram. Einnig verður aðferðafræði við notkun WaSiM enn frekar bætt, m.a.m. tilliti til uppgufunar.