Tímaraðir

Tímaraðahópur

Rannsókn á liðnu veðurfari með tímaraðagreiningu beinist fyrst og fremst að því að greina breytileika í rúmi og tíma, einkenni þess breytileika og tengsl hans við eðlisfræðileg ferli í andrúmslofti og við yfirborð jarðar á stórum og smáum kvarða. Tilgangurinn er að greina mynstur og samhengi sem nýtist við túlkun á veðurfarsbreytingum og við spár um veðurfar og afrennsli. Sérstök áhersla verður á greiningu aftakaatburða, s.s. flóða, þurrka og ofanflóða. Fundnir verða stikar (e: parameters) í veðurfarsgögnunum sem vísa á slíka atburði og eiginleikar þeirra rannsakaðir með tilliti til forspárgildis, mats á endurkomutíma og mats á óvissu. Sérstaklega verður hugað að áhrifum loftslagsbreytinga liðins tíma á flóðahætti.

Árið 2009 voru áhrif veðurfarssveiflna síðastliðinna áratuga á vatnsföll og eiginleika þeirra könnuð. Ellefu vatnasvið með mismunandi eiginleika og rennsli voru könnuð og svörun þeirra við breytileika í hitafari rannsökuð, þ.e. athuguð voru hlý ár og köld auk meðalára. Þessi rannsókn nær m.a. til árstíðasveiflna, vatnsmagns í hámarksflóði og tímasetningar þess innan ársins, fjölda hámarka yfir þröskuldsgildi rennslis (POT - Peak Over Threshold), ársmeðalrennslis og lágmarksrennslis. Þessar upplýsingar hafa verið greindar ásamt upplýsingum um snjódýpt, snjó- og ísbráðnun og rigningu, reiknað frá daglegu úrkomu- og hitamati með 1 km reikniupplausn. Árið 2011 var þessari vinnu haldið áfram, og aðferð þróuð til að hanna dagleg hitakort fyrir Ísland. Þessari aðferð er lýst í grein sem send verður til tímaritsins Jökuls í febrúar. Á árinu 2011 verður einnig gengið frá vísindagrein um niðurstöður greininga á ofangreindum 11 vatnsföllum þar sem fjallað verður um áhrif loftslagsbreytinga og veðurfarssveiflna á rennsli og eiginleika vatnsfallana. Ennfremur verður á árinu 2011 haldið áfram að greina tengingu á milli aftakaflóða og úrkomu, hita og hringrásar andrúmsloftsins, þar sem notast verður við veðurflokkun og samanburð við þekkt veðurskilyrði. Kannað verður hvort nota megi þessa tengingu til að spá fyrir um aftaka atburði í framtíðar veðurfari. Þá verða úrkomu- og hitagögn Veðurstofu Íslands nýtt við þróun aðferða til að reikna dreifingu ársflóða (PDF-Probability Distribution Function). Ennfremur verða kannaðar aðferðir til að spá fyrir um rennsli vatnsfalla sólarhring fram í tímann.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica