SVALI
Stability and Variations of Arctic Land Ice
Veðurstofan tekur þátt í norræna jöklarannsóknarverkefninu SVALI ásamt Jarðvísindastofnun Háskólans en það hófst árið 2010 og mun standa til ársins 2015.
Verkefnið er þáttur í Öndvegisrannsóknaáætluninni sem norræna ráðherranefndin stendur að og nefnist Toppforskningsinitiativet (TFI) eða Top-level Research Initiative (TRI), þar sem fengist er við margvíslegar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga.
Við Norður-Atlantshaf og á Norðurskautssvæðinu er umtalsverður hluti jökla á jörðinni og frá þeim falla mörg vatnsföll til Norður-Atlantshafsins og Norðuríshafsins. Þessir jöklar hafa flestir hopað hratt undanfarin ár og þörf er á margvíslegum rannsóknum til þess að segja fyrir um viðbrögð þeirra við áframhaldandi hlýnun sem vænta má á norðurslóðum á næstu áratugum.
Í rannsóknarverkefninu verður skipulagður norrænn samstarfsvettvangur fyrir jöklafræðinga við sautján rannsóknarstofnanir og háskóla þar sem fengist verður við greiningu jöklamælinga og líkanreikninga á veðurfari, afkomu jökla og ísflæði. Unnið verður að endurbótum á reiknilíkönum sem notuð eru til þess að segja fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og ritaðar yfirlitsskýrslur um breytingar á jöklum á Norður-Atlantshafssvæðinu og öðrum norðurslóðum.
Mikilvægur þáttur í verkefninu er dreifing upplýsinga um jöklabreytingar til ýmissa hagsmunaaðila og almennings. Verkefnisstjóri á Veðurstofu Íslands er Tómas Jóhannesson. Einnig vinnur Bergur Einarsson að doktorsverkefni sem fellur undir SVALI.
Lokafundur SVALA var haldinn á Grænlandi í júní 2015, sjá frétt á vef Veðurstofunnar.