Greinar

Veðurvindáttir

Trausti Jónsson 4.7.2007

Í veðurathugunum er hefð fyrir því að stefna sé gefin upp sem horn af hring. Hringurinn byrjar við norðanátt og hækkar gráðutalan sólarsinnis, þ.e.a.s. með því að farið er um austur, austanátt talin 90°, suður (180°), vestur (270°) og að lokum í norður, en hrein norðanátt er eftir hefð talin stefnan 360° (ekki 0°).

Þau mælitæki sem nú eru algengust gefa vindátt, jafnvel með innan við 1° nákvæmni, en í raun er nákvæmnin nokkru minni. Ef mælt er með vindáttamæli er 10° nákvæmni látin nægja í skeytum mannaðra veðurstöðva, en séu mælitæki ekki til staðar er átt áætluð í 16 stefnur, N, NNA, NA o.s.frv. NA-átt er þá kölluð 04 (þó hún ætti að vera 45°) og NNA er 02 (þó hún ætti að vera 22,5°).

Á fyrri tímum var vindátt að jafnaði aðeins greind í átta höfuðáttir. Veðurgráður varpast öðruvísi á hring en hefðbundnar gráður í stærðfræði þar sem 0° eru að jafnaði þar sem við setjum austur í veðurhringinn og hækkandi gráðutala gengur á móti sól. Gefið þessu gaum.

Veðurgráður og stærðfræðigráður
skýringarmynd, tveir hringir með ör
Mynd 1. Veðuráttir til vinstri, hefðbundin stærðfræðihorn til hægri. Veðuráttin hækkar réttsælis frá norðri (0° = 360°) eins og hefðbundið er á landabréfum þar sem norður er upp, austur til hægri, en vestur til vinstri. Stærðfræðihornið er venjulega framsett á annan hátt, 0° eru þar til hægri, en 180° til vinstri, 90° eru beint upp.
Aftur upp

Vindörvar

Svörtu táknin (sjá 2. mynd) eru vindörvar, sú til vinstri sýnir átt rétt sunnan við vestsuðvestur, en sú til hægri átt rétt sunnan við austsuðaustur.

Fanafjöldinn sem dreginn er þvert á örvarnar sýnir vindstyrk, hér í báðum tilvikum 20 m/s (40 hnútar). Hefð er að fanirnar snúi að lægri þrýstingi.

Vindátt er ætíð nefnd eftir þeirri átt sem vindur blæs ÚR, t.d. kemur vestanátt úr vestri og sunnanátt úr suðri. Þetta hefur valdið misskilningi.

Hefð er einnig fyrir því að vindörvar á veðurkortum liggi úr stefnu þaðan sem vindurinn blæs og endi í stað stöðvarinnar sem oftast er merkt með hring.

Styrkurinn er gefinn til kynna með fönum, hver þeirra táknar um 5 m/s (10 hnúta að fornu tali), 2,5 m/s eru táknaðir með styttri fön.

Vindörvar
skýringarmynd
Mynd 2. Vindörvar - hefðbundnar veðurkortaörvar (svartar), vindvigrar í rauðu og bláu.
Aftur upp

Fanir á vindörvum

Fanirnar sveigjast ætíð í stefnu í átt að lægri þrýstingi (sjá 2. mynd) og þær snúa því öfugt á veðurkortum á suðurhveli. Sé vindhraði það mikill að fanirnar verði fimm eða fleiri er í stað þeirra teiknaður lítill oddhvass þríhyrningur, sem þá táknar 25 m/s. Einn þríhyrningur auk einnar og hálfrar fanar táknar þannig 32,5 m/s.

Á norðurhveli jarðar blæs vindur rangsælis kringum lægðarmiðjur. Ef upplýsingarnar væru af suðurhveli jarðar sneru fanirnar öfugt þó sama átt sé sýnd. Þar blæs vindur réttsælis (frá norðurhvelsbæjardyrum séð) í kringum lægðir.

Vindupplýsingar eru settar fram með þessum hætti á verðurkortum.

Aftur upp

Vigurvindar

Eftir að tölvuspár komu til sögunnar fór að bera meira á svokallaðri vigurframsetningu á vindi, vindstyrkur kemur þá oftast fram sem lengd örvarinnar og örvaroddurinn (engar fanir) liggur TIL þeirrar áttar sem vindurinn blæs Í og byrjar í stöðvarpunktinum eða punkti í hnitaneti.

Bláa örin á 2. mynd sýnir vigurframsetningu vestsuðvestanáttarinnar, en sú rauða austsuðaustanáttarinnar.

Þegar vindur er settur fram með vigrum er hann oftast þáttaður í tvo (staðbundið) hornrétta þætti, breiddar- og lengdarþátt (u og v).

Sú hefð er uppi að vestan- og sunnanáttir eru taldar pósitívar, en austan- og norðanáttir negatívar.

Gæta þarf að því að engin alþjóðasamþykkt liggur til grundvallar útliti vigurvindörva.

Aftur upp

Einfaldaðar örvar

Á einfölduðum veðurkortum í sjónvarpi, blöðum og á netinu er vindstyrkur oftast tilfærður þannig að ör liggur í vindstefnuna, henni tengist einnig tala sem greinir vindstyrk, ýmist skrifuð ofan í örina eða við hlið hennar.

Þessi framsetningarmáti er notaður á flestum athugana- og spákortum á vef Veðurstofunnar.

Á sérkortum á síðum sem sýna sjó- og flugveðurspár má þó sjá hefðbundnar fanaörvar.


Úr Veðurbók Trausta Jónssonar

Ítarefni

Rætt er um mismunandi vindörvar á kortum í sérstakri smágrein.

Einnig er fjallað um vigurvind á Íslandi á loftslagssíðum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica