Upplýsingar um snjóflóðahættu veittar á forsíðu vefsins
Á vef Veðurstofunnar er að finna upplýsingasíðu um snjóflóð og snjóflóðahættu undir bláa flipanum Snjóflóð á forsíðunni. Þar er birt reglulega snjóflóðaspá fyrir valin landssvæði.
Notast er við alþjóðlegan snjóflóðahættukvarða og er hættunni skipt upp í fimm stig: lítil, nokkur, töluverð, mikil og mjög mikil hætta. Í leiðbeiningum er tafla þar sem stigin eru útskýrð og tilheyrandi litakvarði sýndur. Snjóflóðaspáin er gerð fyrir þrjú landsvæði til að byrja með: norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og austasta hluta Austfjarða. Ástæðan fyrir því að þessi landsvæði urðu fyrir valinu eru nokkrar: Þarna eru starfandi snjóathugunarmenn í föstu starfi hjá Veðurstofu Íslands og því eru snjóalög og snjóflóð nokkuð vel kortlögð. Svæðin eru fjalllend og geta verið snjóþung og því eru snjóflóð fremur algeng. Vetraríþróttir og vetrarferðamennska eru vinsæl í þessum landshlutum.
Snjóflóðaspáin getur verið gagnleg fyrir ýmsa aðila. Fyrst ber að nefna þá sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi s.s. vélsleðamenn og fjallaskíðafólk. Oft á hverjum vetri skellur hurð nærri hælum þegar sleðamenn eða aðrir fjallaferðamenn koma af stað snjóflóðum og stundum hefur farið illa. Það er mikilvægt fyrir þá sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi að meta aðstæður og kunna að forðast það að setja af stað flóð. Snjóflóðaspáin er hjálpartæki í því sambandi en hafa ber í huga að spáin gildir fyrir stórt landsvæði og snjóflóðahætta getur verið breytileg innan svæðisins. Það geta orðið slys þótt menn fari varlega og því er minnt á að ýlir, skófla og snjóflóðastöng á að vera staðalbúnaður hjá þeim sem ferðast um snævi þakin fjöll og að mikilvægt er að kunna að nota þennan útbúnað.
Snjóflóðaspáin getur einnig nýst öðrum sem þurfa að taka ákvarðanir sem tengjast snjóflóðahættu, s.s. Vegagerðinni, fjallaleiðsögumönnum, rafveitum og umsjónaraðilum skíðasvæða.
Taka ber fram að snjóflóðaspáin þarf ekki að vera lýsandi fyrir hættu í byggð. Snjóflóðahætta getur verið til staðar til fjalla þótt alls ekki sé búist við stórum flóðum sem ná niður í byggð. Eins geta komið upp aðstæður þar sem snjóalög eru óstöðug og mikil hætta á að ferðamenn setji flóð af stað en lítil hætta á flóðum af náttúrulegum orsökum á meðan veður er stöðugt.
Á snjóflóðaforsíðunni er einnig að finna athugasemdir vakthafandi snjóflóðasérfræðings um snjóflóðaaðstæður á landinu öllu. Þar er líka kort með punktum sem tákna stærð og staðsetningu snjóflóða sem fallið hafa á síðastliðnum 10 dögum. Þær upplýsingar eru mikilvægar fyrir t.d. fjallaferðamenn vegna þess að nýlega fallin flóð benda til óstöðugleika. Einungis þau snjóflóð sem tilkynnt er um birtast á kortinu, en á hverjum vetri falla fjölmörg flóð sem ekki rata á kortið. Það getur m.a. verið vegna þess að þau falla á svæðum þar sem enginn sér þau eða að ummerki um þau hverfa fljótt í vondum veðrum. Almenningur er hvattur til þess að tilkynna Veðurstofunni um snjóflóð sem falla, einkum ef þau eru utan skráningarsvæða snjóathugunarmanna Veðurstofunnar eða ef þau þykja merkileg á einhvern hátt. Á síðunni er hlekkur sem heitir "Tilkynna snjóflóð".
Til stendur að þróa síðuna enn frekar og í náinni framtíð er fyrirhugað að bæta við fréttum um fallin snjóflóð, um snjóaðstæður, birta snjógryfjugögn o.fl. tengt snjóflóðum. Þar verða líka fréttir af skriðuföllum og grjóthruni. Einnig stendur til að breyta snjóflóðakortinu þannig að hægt verði að þysja inn og fá nánari upplýsingar um flóðin.
Það er von þeirra sem starfa á snjóflóðavakt Veðurstofunnar að þessari upplýsingasíðu verði vel tekið og að hún komi til með að draga úr áhættu fólks vegna snjóflóða. Allar ábendingar eru vel þegnar og þær má senda á netfangið snjoflod@vedur.is. Vefsíðan kemur til með að virka best ef þeir sem eru á ferðinni og sjá snjóflóð eða hafa aðrar upplýsingar um stöðugleika snævar koma upplýsingunum sem fyrst til Veðurstofunnar svo hægt sé að birta þær almenningi.