Greinar

Ský og skýjaflokkar

Sigrún Karlsdóttir 11.8.2006

Hvernig verða skýin til?

Vatn er alls staðar í andrúmsloftinu í kringum okkur en í mismiklu magni. Oftast er það í formi ósýnilegrar gufu en stundum sem ský. Skýin myndast þegar loft kólnar en það gerist oft þegar loftið þrýstist upp. Þau geta einnig myndast þegar raki eykst í loftinu, t.d. þegar loftið ferðast yfir vatn.

Skýin gefa upplýsingar hverning veðrið muni þróast. Þegar ný ský byrja að myndast er eðlilegt að álykta að breyting á veðrinu sé í nánd.

Hvernig flokkast skýin?

Núna flokka veðurfræðingar skýin í flokka eftir hæð þeirra frá yfirborði jarðar. Innan hvers flokks skiptast þau síðan niður í fleiri gerðir.

Háský (í 6 - 12 km hæð):

Klósigar - Cirrus

Klósigar

Klósigar mynda einstakar silkigljáandi rákir eða bönd hátt á himninum. Stundum eru klósigarnir bognir upp á við í annan endann og nefnast þá vatnsklær, en þær eru fyrirboði þess að þykkni upp af bliku, grábliku og regnþykkni. Klósigar eru myndaðir úr ískristöllum og vegna þess hve hátt skýin liggja eru þau fyrstu skýin sem roðna við sólarupprás. Þau eru sýnileg eftir sólarlag.

 

Maríutása - Cirrocumulus

Maríutása

Maríutása er há skýjabreiða, oft grisjótt og gerð úr hnoðrum, sem vegna fjarlægðar frá yfirborði eru örsmáir og mynda oft bönd eða rákir. Maríutása sést stundum við jaðar bliku, enda úr ískristöllum eins og hún.

 

 

Blika - Cirrostratus

Blika

Blika er hvít, þunn og oftast samfelld háskýjabreiða sem oft dregur upp á himininn þar til hún þekur allt loftið. Boðar hún oft komu regnsvæðis og kemur þá gráblika og regnþykkni með úrkomu í kjölfar hennar. Sól sést gegnum blikuslæðuna. Rosabaugur myndast stundum  kringum sól er geislar hennar brotna í ískristöllunum.

 

Aftur upp

Miðský (í 2 - 6 km hæð):

Netjuský - Altocumulus

Netjuský

Netjuský eru hvít eða grá, hnoðruð ský eða skýjabreiður, þar sem skiptast á dökk og ljós svæði. Hnoðrar netjuskýja eru mun stærri en hnoðrar maríutásu, enda mun nærri yfirborði. Þeir mynda oft regluleg bönd eða raðir. Netjuský myndast gjarnan úr grábliku sem er að leysast upp.

 

 

Gráblika - Altostratus

Gráblika

Gráblika er gráleit, samfelld og oft víðáttumikil skýjahula, gerð úr regndropum og ískristöllum. Er skil og regnsvæði nálgast kemur gráblikan á eftir blikunni, þykknar og lækkar á lofti, þar til tekur að rigna úr henni. Þá tekur regnþykki við, en það er í rauninni ekki annað en mjög þykk gráblika lágt á lofti.

 

Aftur upp

Lágský (í 0 - 2 km hæð):

Flákaský - Stratocumulus

Flákaský

Flákaský eru mjög algeng ský hérlendis. Þau eru svipuð netjuskýjum en mynda þó samfelldari skýjabreiðu sem er lægra á lofti og dekkri á köflum. Þau eru gerð af stórum lopum eða hnoðrum sem raða sér oft í bönd og virðast skýin þá öldótt. Flákaský eru mynduð af örsmáum vatnsdropum og eru ekki úrkomuský.

 

Þokuský - Stratus

Þokuský

Þokuský mynda samfellda, gráleita skýjahulu og eru lægst allra skýja á lofti, liggja oft í miðjum hlíðum eða jafnvel rétt yfir yfirborði. Þau eru gerð úr smáum vatnsdropum og eru yfirleitt ekki úrkomuský. Þó fellur úr þeim súld eða úði séu þau mjög þykk.

 

Aftur upp

Háreist ský (í 0 - 12 km hæð):

Bólstraský - Cumulus

Bólstraský

Bólstraský eru einstök ský, hnoðrar eða bólstrar, sem stundum vaxa upp í allháa hrauka eða turna. Þau eru algeng í góðviðri, en einnig má sjá þau á lofti ásamt flákaskýjum, eða þá í skúralofti ásamt skúraskýjum.

 

 

Skúraský - Cumulonimbus

Skúraský

Skúraský eru mjög háreist ský sem geta náð frá lágskýjahæð upp til veðrahvarfa. Risavaxnir bólstrar virðast oft vaxa upp í gegnum þau og efst hafa þau lögun sem líkist steðja. Úr þeim falla skúrir, snjóél eða haglél. Snarpur vindur fylgir oft úrkomunni og stundum þrumur og eldingar. Sjá einnig fróðleik um skúraský.

 

 

Regnþykkni - Nimbostratus

Regnþykkni

Regnþykkni er náskylt grábliku og má reyndar líta á það sem mjög þykka grábliku. Samfelld úrkoma (rigning eða snjókoma) fellur nær eingöngu úr regnþykkni.

 

 

 

 

Fleiri skýjamyndir og fróðleik um ský má m.a. finna á vefsíðu John A. Day, Cloudman, og síðu NOAA, Jetstream - An Online School for Weather.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica