Úrkomumælingar í Vestmannaeyjum
Söguágrip og samanburður
Úrkomumælingar hófust í Vestmannaeyjakaupstað í nóvember 1880. Hinn 17. september 1921 var stöðin flutt að Stórhöfða þar sem hún er nú. Ekkert vantar í þessa röð.
Úrkomumælir og snjósívalningur voru sendir til Vestmannaeyja ásamt tveimur mæliglösum 10. mars 1880, en ekki var þó byrjað að skrá úrkomu fyrr en í nóvember sama ár. Ný mæliglös voru send 27. maí og 18. ágúst 1882. Nýjar mælikönnur og snjókantar voru sendir bæði 21. apríl og 9. október 1884. Mæliglas var sent 27. mars 1888. Regnmælir úr kopar og snjómælir voru sendir 2. apríl 1890 og 1916 virðist vera kominn Hellmannmælir, en hvenær það var kemur ekki fram.
Sendingar veðurskeyta hófust frá Vestmanneyjum 1911, en mjög óvíst er að Gísli Johnsen, sem þá var athugunarmaður, hafi gert veðurskeytin því aðrir eru skráðir fyrir þeim. Jafnvel er trúlegt að tveir hitamælar og jafnvel tvær loftvogir hafi verið í notkun á staðnum. Þetta þyrfti að athuga nánar en kemur úrkomumælingunum ekki við. Úrkomumælingar voru ekki gerðar samhliða skeytasendingum fyrr en farið var að athuga á Stórhöfða.
Samanburðarmælingar
Úrkomumælingar voru gerðar í Kaupstaðnum á árunum 1961 til 1973. Mælingarnar voru nokkuð stopular fyrstu árin en heillegar frá og með 1965. Þær lögðust af með gosinu í janúar 1973.
Á tímabilinu janúar 1965 til desember 1972 mældist úrkoma í Kaupstaðnum 97% af úrkomunni á Stórhöfða. Árstíðasveifla virðist gefa til kynna ívið meiri úrkomu á vetrum í Kaupstaðnum heldur en á Höfðanum, en hlutfallslega minni á sumrin. Líklegt er að úrkoma í stormasömum mánuðum skili sér betur í mælana í bænum.
jan | feb | mar | apr | maí | jún | júl | ágú | sep | okt | nóv | des |
0,97 | 1,09 | 1,09 | 0,99 | 0,84 | 0,95 | 0,92 | 0,88 | 0,93 | 0,96 | 1,11 | 1,07 |
Tafla 1. Hlutfall úrkomu í Kaupstaðnum af úrkomu á Stórhöfða 1965 til 1972 (%)
Frávik frá þessum meðaltölum eru talsverð í einstökum mánuðum, mest í mars 1968 þegar 302 mm mældust á Stórhöfða, en 168 í Kaupstaðnum. Mánuðurinn var hinn úrkomusamasti á Stórhöfða á samanburðartímabilinu. Lægst varð hlutfallið í mjög þurrum mánuði, febrúar 1966, þá mældist úrkoma 26 mm á Stórhöfða, en 35 í Kaupstaðnum.
Þar sem meðalmunur er ekki mikill hefur ekki verið gerð tilraun til að reikna („leiðrétta“) mælingarnar frá því fyrir 1921 til Stórhöfða, óvissa af öðrum völdum er mun meiri.
Skipt var um úrkomumæli á Stórhöfða 2. nóvember 1943 og aftur nýr með hlíf tekinn í notkun 31. október 1957. Úrkomumælir var enn endurnýjaður í september 1973.
Tafla 2. Athugunarmenn og staðir í Vestmannaeyjum
nafn | byrjar | hættir | staður |
Þorsteinn Jónsson | 1877 | 1906 | Kaupstaður |
Gísli Johnsen | 1906 | 1921 | Kaupstaður |
Jónathan Jónsson | 1921 | 1922 | Stórhöfði |
Sigurður V. Jónathansson | 1921 | 1924 | Stórhöfði |
Gunnar Þ. Jónathansson | 1924 | 1931 | Stórhöfði |
Jónathan Jónsson | 1931 | 1935 | Stórhöfði |
Sigurður V. Jónathansson | 1935 | 1965 | Stórhöfði |
Óskar J. Sigurðsson | 1965 | 2008 | Stórhöfði |
Pálmi Óskarsson | 2008 | # | Stórhöfði |
Aage L. Petersen | 1911 | 1919 | Skeytastöð |
Magnea Þórðardóttir | 1919 | 1921 | Skeytastöð |
R.L. Petersen | 1920 | 1921 | Skeytastöð |
Starfsmenn Landssímans | 1921 | 1921 | Skeytastöð |
Garðar Sigurjónsson | 1961 | 1972 | Kaupstaður - úrkomumælistöð |
Starfsmenn Rafveitu Vestmannaeyja | 1961 | 1973 | Kaupstaður - úrkomumælistöð |
Efni þessa texta er að meginhluta fengið úr greinargerðinni Langtímasveiflur II - Úrkoma og úrkomutíðni eftir Trausta Jónsson, 2003 (pdf 1,71 Mb).