Greinar
þvottur blaktir í vindi, grónar flatir, haf og klettar
Frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum sumarið 1974.

Lægsti loftþrýstingur á Íslandi

Íslensk veðurmet 5

Trausti Jónsson 4.10.2007

Lægsti loftþrýstingur: Stórhöfði í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 kl. 09:30, 920 hPa.

Íslandslægðin

Loftþrýstingur á Íslandi er lágur miðað við það sem gengur og gerist á jörðinni. Meðalloftþrýstingur á norðurhveli er lægstur yfir hafsvæðinu suðvestur af Íslandi. Þetta lágþrýstisvæði kallast Íslandslægðin meðal veðurfarsfræðinga. Einstakar lægðir í þroska hreyfast í átt til landsins, ná fullri dýpt og deyja síðan. Þrýstingur fer mjög sjaldan niður fyrir 940 hPa og þá aðeins í stuttan tíma á tiltölulega litlu svæði, jafnvel þó dýpstu lægðirnar séu oftast orðnar hægfara.

Því er ekki við því að búast að þrýstimælingar einu sinni á dag grípi nærri öll lágþrýstitilvik. Lægðarmiðjurnar eru einnig oftast litlar um sig og þó þrýstingur sé afbrigðilega lágur á Austurlandi þarf hann ekki að vera það á Suðurlandi. Þessu er öðruvísi farið með hæðir. Sé þrýstingur óvenjuhár er hann einnig óvenjuhár um allt land.

Veðurkort 2. desember 1929.
Loftþrýstingur 2. desember 1929
Mynd 2. Veðurkort af landinu kl. 08:00 2. desember 1929. Lægsti loftþrýstingur mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þennan dag kl. 09:30, 920 hPa. Kl. 08 var þrýstingurinn á Stórhöfða 692,1 mm (= 922,7 hPa) og átti eftir að falla þar til hann varð lægstur, einni og hálfri klukkustund síðar. © Veðurstofa Íslands.

Lágþrýstimetið

Lægsti þrýstingur sem vitað er um hér á landi mældist í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 kl. 9:20. Svo vel vildi til að Gunnar Þ. Jónathansson athugunarmaður mældi þrýstinginn á 10 mínútna fresti um það bil sem hann var lægstur. Loftvogin á Stórhöfða var talin í 122 m hæð yfir sjávarmáli og því er hæðarleiðrétting nokkuð stór. Samanburðarathuganir gefa til kynna að loftvogin sem í notkun var hafi verið nokkuð rétt og leiðréttingartöflurnar sömuleiðis. Ef eitthvað er er frekar að hún hafi sýnt um 0,1 hPa of hátt fremur en of lágt.

Óvissa vegna vinds?

Annað atriði truflar þó þessa mælingu nokkuð. Ofsarok var af austri og síðar suðaustri þennan morgun. Mikil hvassviðri valda minniháttar sveiflum í loftþrýstingi vegna sogs í húsum, auk þess sem athugunarstöðin (eins og nafnið bendir til) er á höfða sem loftið þarf að lyftast yfir eða framhjá. Höfðinn verkar því í hvassviðri á svipaðan hátt og flugvélarvængur, þrýstingur fellur við yfirborð hans, eins og við efra borð vængja, og er lægri þar en umhverfis. Í miklum vindi geta þessi áhrif verið umtalsverð.

Páll Bergþórsson reiknaði á sínum tíma hver þessi lækkun ætti að vera við mismunandi vindhraða. Með nákvæmri athugun á veðurkortum áætlaði hann síðan þrýsting í Vestmannaeyjum útfrá bæði vindi á svæðinu, sem og þrýstingi og þrýstibreytingum á öðrum nálægum stöðvum. Áætlaður þrýstingur var þá borinn saman við athugaðan þrýsting og mismunur athugaður. Í ljós kom að mismunurinn var raunverulega háður vindhraða, en þó var hann ívið minni en hin fræðilega lækkun gaf til kynna.

Þrýstileiðrétting Páls er nú oftast notuð við greiningu á veðurkortum á Veðurstofunni og reyndar nota fáeinar erlendar veðurstofur hana líka. Í desember 1929 var enginn vindhraðamælir kominn í Vestmannaeyjum og vindur kl. 8 um morguninn áætlaður 11 vindstig. Hafi sami vindur eða svipaður verið kl. 9:20 ætti leiðrétting samkvæmt töflu Páls að vera um 3,9 hPa. Réttur þrýstingur hafi því verið 923,6 hPa. Þetta væri samt lægsti þrýstingur við sjávarmál á Íslandi.

Rúmum þermur árum síðar (3. janúar 1933) mældist þrýstingur í Vestmannaeyjum 923,9 hPa.

Dýpstu lægðir

Allt fram til 1986 var metið 1929 talið lægsti þrýstingur á norðurhveli utan hitabeltisins. Í desember það ár mældust 920 hPa á bauju fyrir suðvestan land (hún var ekki forrituð til að senda lægri þrýsting). Lægðin sú er talin hafa verið 914 hPa í lægðarmiðju. Ámóta lægð eða jafnvel dýpri var á ferðinni fyrir sunnan og suðaustan land í janúar 1993. Þar er talað um gildin á bilinu 910 til 911 hPa. Svo virðist sem aftaka djúpar lægðir hafi verið óvenjumargar á árabilinu 1982 til 1995 miðað við fyrri og síðari tímaskeið.

Gamla Reykjavíkurmetið frá 1824

En fram að metinu 1929 var annað íslenskt lágþrýstimet tilfært í bókum og sést því stundum enn. Það var sett rúmum 100 árum áður, eða kl. 9 þann 4. febrúar 1824, og þá í Reykjavík.

Jón Þorsteinsson landlæknir athugaði í Reykjavík á árunum 1820 til 1854. Athuganir hans á árunum 1823 til 1837 voru gefnar út á bók og þar mátti hver sem er lesa tölu sem á nútímakvarða er 924,4 hPa, oftast tilgreind sem 924 hPa og er það svosem tilhlýðileg nákvæmni.

Kort bresku veðurstofunnar
2. desember 1929
Veðurkort 2. desember 1929
Mynd 3. Kort bresku veðurstofunnar að morgni 2. desember 1929, stækkanlegt. Lægðin er undir 940 mb djúp sunnan við land. Ekki er dregið á þrýsting Stórhöfða þó skeytið þaðan hafi borist.

Eins og lesa má í fróðleik sem fylgir háþrýstimetsvísi bendir samanburður við aðrar stöðvar til að loftvogin hafi verið ívið of lág, eða sem nemur 1,8 hPa. Samkvæmt því hefur þrýstingurinn verið 926,2 hPa. Vegna þess að háþrýstimetið fékk ekki að njóta viðbótarinnar í umfjöllun er rétt að sleppa lágþrýstimetinu við það líka og halda 924,4 hPa til streitu.

Veðurlýsingar Jóns voru fremur stuttaralegar á þessum árum og um veðrið þann 4. febrúar segir einfaldlega - ligesaa - og er þar átt við veðrið dagana á undan. Við þann 1. stendur: omlöbende SV med Snee -, þann 2. dito, þann 3. ligeledes og ligesaa þann 4., eins og áður sagði. Daginn eftir er hins vegar: SV med Snee og Storm. Hiti alla þessa daga var - 3 stig á Reamaur-stiga (= - 3,8°C). Kunnugleg lýsing á öflugum útsynningi, má þetta teljast. Það var ekki fyrr en hálfum mánuði síðar sem kom vika með góðu og mildu veðri.

Tveimur árum áður, 8. febrúar 1822, mældi Jón líka mjög lágan þrýsting. Frumheimild hefur því miður glatast, en mælingin kom fram í ritinu Annals of Philosophy árið 1822 (bls. 405). Talan sem birtist þar var 923,6 hPa. Ekki er vitað hvaða leiðréttingum hefur verið beitt, en séu þær allar notaðar verður lokatalan 926,5 hPa.

Sjá einnig pistil um leiðréttingar loftvoga.

Met sem trauðla finnst?

Þegar gerð er tilraun til að finna lágþrýstimetið á Stórhöfða í bókum eða á netinu finnst það varla, Reykjavíkurmetsins frá 1824 er frekar getið. Ekki er ljóst hvernig á þessu stendur, en sennilega hefur skeytinu ekki verið trúað þegar það barst til annarra landa. Hér fylgja myndir af nokkrum veðurkortum, tvö eru upprunanleg, þ.e.a.s. að þau voru gefin út skömmu eftir atburðin. Þetta eru enska kortið (mynd 3) og það þýska (mynd 4). Á enska kortinu eru þrýstilínur dregnar með fjögurra mb bili og línan næst lægðarmiðjunni er 940 mb. Þetta gefur til kynna að lægðin sé eitthvað dýpri en þetta. Sjá má að skeyti frá Stórhöfða er sett inn á kortið, en þrýstingnum ekki trúað. Sjá síðan texta með myndum 4, 5 og 6.

Kort Deutsche Seewarte 2. desember 1929
Veðurkort 2. desember 1929
Mynd 4. Kort Deutsche Seewarte í Hamborg að morgni 2. desember 1929. Hér eru jafnþrýstilínur dregnar með 5 mm bili (6,67 hPa). Innsta línan er 695 mm (=926,6 hPa). Ekki er dregið á þrýsting á Stórhöfða, en dýpt lægðarinnar er alla vega nærri lagi. 
Kort úr röðinni Historical Weather Maps 2. desember 1929
Veðurkort 2. desember 1929
Mynd 5. Kort úr safninu „Historical Weather Maps" sem bandaríska veðurstofan gaf út á 6. og 7. áratugnum. Gerð var tilraun til að „endurgreina“ veður frá 1899 til 1970. Þetta kort gildir nálægt hádegi 2. desember 1929. Þá hafði þrýstingur hækkað nokkuð á Stórhöfða, en innsta þrýstilínan á kortinu er 940 mb - nokkuð langt frá réttu gildi. Þó þessi kortaröð sé oft vitlaus er hún engu að síður mjög gagnleg.
Kort Wetterzentrale 2. desember 1929
Veðurkort 2. desember 1929
Mynd 6. Kort úr safni sem aðgengilegt er á netinu, Wetterzentrale. Þessi kortaröð, sem nær frá 1880 og fram til 1948, er að mestu gerð eftir amerísku röðinni sem getið er við mynd 5. Hér hefur verið gripið til þess ráðs að hafa stóra eyðu í stað þess að trúa einfaldlega athuguninni frá Stórhöfða. Þessi ákveðna kortaröð er sérlega óviss í kringum Ísland á tímanum 1924 og fram yfir 1930 og árið 1925 (og e.t.v. fleiri) eru einfaldlega engar uplýsingar frá Íslandi á kortunum.  Þá kemur fyrir að margar illviðralægðir vantar á kortin. Þó þessi kort séu mjög gagnleg og þægileg í flettingum ættu notendur mjög að hafa í huga takmarkaðan áreiðanleika þeirra.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica