Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2014.

Jarðskjálftar í febrúar 2014

7.3.2014

Í febrúar 2014 voru um 960 jarðskjálftar staðsettir með skjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Nokkrar skjálftahrinur mældust með tugi skjálfta. Þær voru suðaustan Langjökuls, á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, við Fagradalsfjall og Húsmúla á Hellisheiði. Þrjár smáhrinur, með um tug skjálfta, urðu við Upptyppinga, Geitlandsjökul og á Torfajökulssvæðinu. Stærstu tveir skjálftarnir sem mældust í febrúar voru 3,4 stig með upptök úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Þeir urðu 26. febrúar og bárust tilkynningar frá Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri um að þeir hefðu fundist.

Reykjanesskagi

Um tíu skjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg í kringum Geirfugladrang, stærstu voru um tvö stig. Smávirkni var við Reykjanestá milli 6. og 8. febrúar. Á Reykjanesskaga mældust um 70 jarðskjálftar á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum. Flestir eða rúmlega 30 urðu í hrinu við Fagradalsfjall þann 14. febrúar. Um 30 mældust líka á Krýsuvíkursvæðinu. Nokkrir smáskjálftar urðu við Brennisteins- og Bláfjöll. Stærsti skjálfti mánaðarins á Reykjanesskaga var við Kleifarvatn þann 20. febrúar kl. 04:17 og var hann 2,2 að stærð.

Suðurland

Talsverð virkni var við Húsmúla, tæplega 90 skjálftar voru staðsettir þar. Flestir urðu í tveimur hrinum 16. og 27. febrúar. Enginn skjálfti á þessu svæði náði tveimur stigum að stærð. Á Hengilssvæðinu mældist líka smávirkni í kringum Hrómundartind, Nesjavelli og Eiturhól. Fremur rólegt var í Ölfusi. Nokkrir smáskjálftar urðu á Krosssprungunni og í Þrengslum, allir minni en 1,5 að stærð.

Ríflega 65 jarðskjálftar mældust á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendinu. Flestir voru staðsettir við Hestfjall (um 20 skjálftar) og við Selsund (um 15 skjálftar). Enginn skjálfti á Suðurlandi náði 1,5 stigum.

Norðurland

Rúmlega 200 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í febrúar og er það svipaður fjöldi og var mánuðinn á undan. Tvær smáhrinur urðu, með tveggja daga millibili, vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Sú fyrri hófst að morgni 24. febrúar og stóð fram yfir hádegi þann dag. Rúmlega 30 skjálftar mældust, stærsti um þrjú stig. Fyrri hluta mánaðarins höfðu mælst yfir 20 skjálftar á þessum stað. Síðari hrinan varð um fjórum kílómetrum austar en sú fyrri og hófst klukkan 08:06 þann 26. febrúar með skjálfta sem var 3,4 að stærð. Annar skjálfti sömu stærðar varð sex mínútum síðar. Tilkynningar bárust frá Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri um að þeir hefðu fundist. Um tugur eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið. Í september og október í fyrra varð hrina á þessum slóðum þar sem hundruðir skjálfta mældust og var sá stærsti tæp fjögur stig.

Jarðskjálftar úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna en þær grennri sniðgengishreyfingar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu (HFF). Grænu punktarnir sýna staðsetningu skjálfta sem hafa orðið frá 24. febrúar 2014 og grænar stjörnur skjálftana frá því að morgni 26. febrúar 2014.

Hátt í 60 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, einkum síðari hluta mánaðarins, enginn stærri en tvö stig. Rúmlega 20 skjálftar mældust norðar á Grímseyjarbeltinu. Á annan tug skjálfta mældist við Kröflu, allir um og innan við einn að stærð, og fáeinir við Þeistareyki.

Hálendi

Um 120 skjálftar áttu upptök undir Vatnajökli. Mesta virkni var undir Lokahrygg, austan Hamarsins. Þar mældust um 35 skjálftar, stærsti 2,3 að stærð. Önnur virkni var nokkuð dreifð. Aðeins einn annar skjálfti náði yfir tveimur að stærð. Hann varð norðaustan við Bárðarbungu. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust hátt í 100 skjálftar. Flestir voru við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Rúmlega 20 voru með upptök við Öskju. Þar mældist stærsti skjálftinn á svæðinu, 2,2 stig. Hrina níu smáskjálfta varð við Upptyppinga 7. febrúar. Þeir voru á um 20 kílómetra dýpi. Nokkrir smáskjálftar mældust við Vaðöldu og Kollóttudyngju.

Mesta skjálftavirknin í vestara gosbeltinu var milli Hagavatns og Sandvatns, suðaustan Langjökuls. Yfir 60 skjálftar mældust, flestir dagana 5. - 14. febrúar. Stærsti var 9. febrúar, 2,5 stig. Smáhrina varð við Geitlandsjökul 5. - 8. febrúar með tug skjálfta, stærsti 2,6. Þrír skjálftar mældust með upptök undir Þórisjökli, allir um eitt stig að stærð. Norður af Eiríksjökli mældust tveir skjálftar með fimm mínútna millibili, um 1,5 að stærð. Norðaustan undir Hofsjökli mældust tveir skjálftar, 2,0 og 2,3 að stærð.

Mýrdalsjökull

Alls mældust um 75 skjálftar undir Mýrdalsjökli, sem eru færri en síðustu mánuðina. Álíka margir áttu upptök undir vestanverðum jöklinum og innan Kötluöskju. Aðeins tugur skjálfta mældist við Hafursárjökul sunnan öskjunnar. Stærstu skjálftarnir voru um og rétt rúmlega einn að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust tæplega 20 skjálftar. Um helmingur varð á fimm klukkustundum aðfararnótt 11. febrúar norður af Hrafntinnuskeri. Stærstu skjálftarnir á svæðinu voru 1,5 stig.

Jarðskjálftar í febrúar (pdf 0,5 Mb)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica