Fréttir
Sólarlag við Jökulsá í Fljótsdal.

Tíðarfar í nóvember 2013

Stutt yfirlit

2.12.2013

Tíð var rysjótt í nóvember. Venju fremur kalt var í kringum miðjan mánuð en síðasta vikan var mjög hlý. Úrkoma var yfir meðallagi um meginhluta landsins, en náði þó ekki meðallagi sums staðar fyrir norðan.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 2,2 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Nokkru kaldara var í nóvember í fyrra heldur en nú. Meðalhiti á Akureyri var 0,5 stig, það er 0,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti 1,6 stig, 0,7 stigum ofan meðallags 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,9 stig og -4,0 á Hveravöllum.

 

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,2 1,1 44 til 45 143
Stykkishólmur 1,6 0,7 65 168
Bolungarvík 0,7 -0,2 68 til 69 116
Akureyri 0,5 0,8 53 132
Egilsstaðir 0,1 0,8 27 til 28 59
Dalatangi 2,4 0,6 42 75
Teigarhorn 1,8 0,5 74 141
Höfn í Hornaf. 1,9
Stórhöfði 3,2 0,8 51 til 52 136
Hveravellir  -4,0 0,8 22 til 23 48
Árnes 0,2 0,5 65 134
Byggð 0,9 0,6

Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 4,4 stig, og 3,9 á Garðskagavita. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -6,1. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -3,6 stig.  

Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga þann 26., 20,2 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 19,0 stig þann 27. á Dalatanga.  

Lægsti hiti mánaðarins mældist -22,5 stig á Brúarjökli þann 9. Í byggð mældist lægsti hiti -20,0 stig við Mývatn og á Grímsstöðum á Fjöllum þann 18. og á Grímsstöðum þann 10. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -19,5 stig í Stafholtsey þann 9. og 10.  

Hitinn á Dalatanga þann 27. er nýtt landsdægurmet (hæsti hámarkshiti 27. nóvember). Eldra met var frá Skjaldþingsstöðum árið 1994, 14,5 stig. 

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land nema á Norðurlandi austanverðu þar sem hún var heldur minni en í meðallagi. Úrkoma mældist 92,7 mm í Reykjavík og er það um 28 prósent umfram meðallag. Þetta er svipað og í nóvember í fyrra og hitteðfyrra. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 87,3 mm og er það 30 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoma í nóvember 51,1 mm og er það í rétt tæpu meðallagi. Úrkoman á Höfn í Hornafirði mældist 136,7 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 18 í Reykjavík, þremur fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 13, einnig þremur fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskin í Reykjavík mældist í 35,4 stundir, 3 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 13,5, einni færri en í meðalnóvember.

Snjólag

Alhvítt var fimm daga í Reykjavík og er það tveimur dögum undir meðallagi áranna 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 23 og er það 7 dögum fleiri en að meðaltali í nóvember 1971 til 2000.  

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði á landinu var um 0,4 m/s yfir meðallagi. Sá 9. var hægastur daga í mánuðinum en 27. sá hvassasti. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1001,6 hPa og er það 2,5 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1034,8 hPa á Egilsstaðaflugvelli þann 23. en lægstur mældist hann 956,4 hPa á Gufuskálum þann 11.

Haust
Horft til  Vífilsfells yfir Elliðavatn í dumbungsveðri hinn 30. nóvember 2013. Útsýnisskífa við Grandahvarf í forgrunni. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Haustið (október og nóvember)

Tíð var býsna breytileg. Þurrt var á Suður- og Vesturlandi í október en úrkoma í nóvember var yfir meðallagi. Hiti var ekki fjarri meðallagi en hitasveiflur voru miklar. Meðalhiti í Reykjavík var 3,22 stig og er það 0,5 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990 en 0,3 undir meðalhausti síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 1,6 stig og er það 0,3 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990, en 0,4 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins 2013

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins 2013 er 5,44 stig, það er 0,7 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990. Árið, það sem af er, er í 30. til 32. sæti hlýrra ára í Reykjavík (af 143), en það þriðja kaldasta á þessari öld (af 13). Á Akureyri er meðalhitinn á sama tíma 4,57 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, það fimmta kaldasta á þessari öld. Úrkoma það sem af er ári er um 30 prósent umfram meðallag á Akureyri en 20 prósent umfram það í Reykjavík.

Skjöl fyrir nóvembermánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í nóvember 2013.
Þessa grein, Tíðarfar í október 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica