Stefnir í enn eitt hlýindaárið á heimsvísu
Fréttatilkynning Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar
Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefur sent frá sér fréttatilkynningu ásamt 14 blaðsíðna yfirliti yfir veðurfar á heimsvísu það sem af er þessu ári (2012).
Í yfirlitinu segir að fyrstu ellefu ár aldarinnar (2001 til 2011) séu öll í hópi hlýjustu ára sem vitað sé um frá því að mælingar hófust og að ekki sé annað að sjá en að svipað verði farið með árið 2012 . Fyrstu tíu mánuðir ársins einkenndust af óvenjulegum hlýindum víðast hvar í heiminum.
Ef á heildina er litið var hiti fyrstu tíu mánuða ársins 0,45 stigum ofan við meðaltalið 1961 til 1990 og er samanlagt í níunda sæti slíkra tímabila. Tímabilið maí til október var hið fjórða hlýjasta í sögunni.
Að vanda gekk veður víða úr skorðum hluta ársins. Athyglisverðasta hitabylgjan gekk yfir Bandaríkin í mars og hennar gætti mánuðina þar á eftir; stefnir í eitt hlýjasta ár sögunnar þar vestra. Viðvarandi þurrkar voru einnig víða í Bandaríkjunum stóran hluta ársins. Sumarið var með allra þurrasta móti í suðaustanverðri Evrópu, víða í Rússlandi og vestanverðri Síberíu. Gróðureldar voru þar til vandræða víða. Þrálátir þurrkar gengu einnig í Brasilíu norðanverðri, í Kína og í Ástralíu.
Mikil flóð gerði í Vestur-Afríku í sumar og einnig í Nígeríu. Mikil flóð gerði í Pakistan samfara monsúntímabili sumarsins og sömuleiðis flæddi óvenjumikið í Argentínu norðanverðri.
Um þriggja vikna kuldakast olli miklum vandræðum í hlutum Suður- og Austur-Evrópu sem og í Rússlandi í janúar og febrúar. Gríðarlega snjóaði á Balkanskaga og sums staðar á Norður-Ítalíu samfara kuldunum og snjókoma með allra mesta móti gekk yfir hluta Norður-Afríku.
Heildarfjöldi hitabeltisstorma var í tæpu meðallagi á heimsvísu, nokkrir þeirra ollu gríðarlegu tjóni, m.a. öflugasti fellibylur ársins, Sanba, en hann fór yfir Filippseyjar og rigndi niður á eftirminnilegan hátt í Kóreu og Japan.
Hafísþekja á Norður-Íshafi hefur aldrei mælst minni en síðastliðið sumar og er það e.t.v. merkasti viðburður ársins á heimsvísu.