Órói við Lokahrygg í Vatnajökli
Frá því í gær hefur Veðurstofan fylgst með óróa við norðvestanverðan Vatnajökul í samvinnu við Almannavarnir og aðrar vísindastofnanir.
Um klukkan 7 í gærmorgun mældist órói á jarðskjálftamælum á svæðinu. Óróinn stóð yfir í um 45 mínútur. Annar svipaður atburður mældist á tímabilinu frá því um 13:15 í gær til klukkan 14:15. Samkvæmt vísindamönnum Veðurstofunnar líkist óróinn því sem mælist vegna vatnsflóða undan jökli (jökulhlaupa). Um klukkan 18 sást óróinn á ný og fór nú hægt vaxandi fram yfir miðnætti, en um klukkan 00:30 var farið að draga úr honum aftur.
Engar breytingar mældust í ám við vestanverðan Vatnajökul í nótt, en rétt fyrir miðnætti fór vatnsborð Hágöngulóns að hækka samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun. Rennslið virðist hafa náð hámarki um kl. 3 í nótt og hafði vatnsborð þá hækkað um 70 cm. Rétt fyrir hádegið í dag runnu um 240 m3/sek úr lóninu á yfirfalli og það vatn rennur í Þórisvatn. Ekki er talin vera hætta á ferðum eða að flóðsins verði vart í byggð.
Myndin sýnir óróagraf frá lóðrétta þætti jarðskjálftamælisins við Skrokköldu, útslag sem fall af tíðni.
Grafið er dæmigert fyrir hlaupóróa með samfellt suð á ákveðnum tíðniböndum. Sterkustu böndin eru 0.9 2.3 og 3 Hz. Grafið sýnir að íshaft hefur brostið um kl. 7 að morgni 12. júlí og hefur þá hafist vatnsrennsli sem stóð í u.þ.b. eina klukkustund. Um 8 klukkustundum síðar virðist vatnið skila sér niður í Hágöngulón, því þá fer að hækka lóninu (sjá mynd af innrennsli í Hágöngulón). Aftur virðist haft hafa brostið tímabundið um kl. 13 og skilar vatnið sér í lónið um kl. 21. Samfelldur órói hefst um kl. 18 og nær hann hámarki rétt upp úr miðnætti, en dvínar síðan stöðugt. Þetta vatn barst í Hágöngulón um kl. 23 og náði rennslið hámarki milli 2 og 4 síðastliðna nótt. Síðan um kl. 6 í morgun hefur verið mun minna rennsli í lónið.
Myndin sýnir innrennsli í Hágöngulón (birt með leyfi Landsvirkjunar).
Áfram verður fylgst með svæðinu.
Vísindamenn sem komu að gerð þessarar fréttar:
Kristín Vogfjörð, Óðinn Þórarinsson og Steinunn S. Jakobsdóttir.