Tíðarfar í október 2010
Stutt tíðarfarsyfirlit
Hlýtt var í október og hiti á landinu 1 til 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990. Hlýindin voru óvenjuleg framan af mánuðinum, en síðan kólnaði og var hiti síðari hlutann nærri meðallagi og suma daga undir því. Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári nema sums staðar á Norðaustur- og Austurlandi.
Hiti
Meðalhitinn í Reykjavík var 6,3 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig en það er 1,3 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6,0 stig og 0,6 stig á Hveravöllum. Meðaltöl fleiri stöðva má sjá í töflu. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá 1985, en ámóta hlýtt var í október 2001. Á Akureyri var hlýrra í október 2007 heldur en nú.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 6,3 | 1,9 | 14 | 140 |
Stykkishólmur | 5,8 | 1,9 | 15 | 165 |
Bolungarvík | 5,0 | 1,8 | 11 | 113 |
Akureyri | 4,3 | 1,3 | 27 | 128 |
Egilsstaðir | 4,5 | 1,4 | 13 | 61 |
Dalatangi | 5,6 | 1,1 | 19 | 72 |
Höfn í Hornaf. | 6,0 | 1,5 | ||
Stórhöfði | 7,1 | 2,1 | 9 | 134 |
Hveravellir | 0,6 | 1,8 | 7 | 45 |
Hæsti hiti á landinu mældist á Sauðárkróksflugvelli þann 2., 17,4 stig. Á mönnuðu stöðvunum varð hiti hæstur á Reykjum í Hrútafirði þann 2. og í Stafholtsey í Borgarfirði þann 3., 15,4 stig. Milli kl. 10 og 19 þann 10. mældist 18 til 19,5 stiga hiti á stöðvum Veðurstofunnar í snjóflóðahlíðum og við varnarvirki. Geislunaraðstæður á þessum stöðvum eru með þeim hætti að hámarksmælingar þeirra eru varla sambærilegar við mælingar á öðrum stöðvum. Ljóst er þó að óvenjulega hlýtt var þennan dag. Á sama tíma mældist hámarkshiti á stöð vegagerðarinnar á Gemlufallsheiði 17,2 stig og 17,4 stig á Biskupshálsi eystra.
Lægsti hiti í mánuðinum mældist á nýrri veðurstöð í Gæsafjöllum norður af Mývatni, -18,5 stig þann 25. Í byggð varð hiti lægstur í Svartárkoti sama dag, -16,3 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist sama dag á Staðarhóli, -15,0 stig.
Meðalhiti í október var hæstur í Surtsey, 8,1 stig, en lægstur á Brúarjökli og í Sandbúðum, -0,7 stig.
Úrkoma
Þurrt var um landið vestanvert. Í Reykjavík mældist úrkoman 41,3 mm og er það tæpur helmingur meðalúrkomu. Úrkoma var síðast svona lítil í Reykjavík í október 2003. Á Akureyri mældist úrkoman 58,3 mm og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 146,5 mm og er það í tæpu meðallagi. Óvenjulítil úrkoma mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 61,4 mm. Ámóta lítil úrkoma mældist þar í október 1981, en úrkoma hefur aðeins einu sinni mælst minni í október, það var 1966 þegar hún mældist 50,6 mm.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 104 og er það 21 stund umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 44 og er það 7 stundum undir meðallagi.
Vindhraði og loftþrýstingur
Mánuðurinn var hægviðrasamur og hefur meðalvindhraði í október ekki verið jafnlágur síðan 2003. Loftþrýstingur var lítillega yfir meðallagi.
Snjólag
Jörð varð aldrei alhvít í mánuðinum í Reykjavík, en þrjá daga á Akureyri. Þetta er hvoru tveggja undir meðallagi áranna 1961-1990, en þá voru að meðaltali 6 alhvítir dagar í október á Akureyri, en 1 í Reykjavík.
Fyrstu 10 mánuðir ársins
Í Reykjavík eru fyrstu 10 mánuðir ársins jafnhlýir og sama tímabil hefur orðið hlýjast áður en það var á árinu 2003. Munur á þessum árum tveimur og fyrstu 10 mánuðum ársins árið 1939 er ekki marktækur. Árið á enn möguleika á að verða það hlýjasta í Reykjavík frá upphafi mælinga.
Í Stykkishólmi er það sem liðið af árinu jafnhlýtt og á sama tíma 2003, ívið hærra en 1939. Röð hlýjustu 10-mánaða tímabilanna er í töflu:
2010 | 6,28°C |
2003 | 6,26°C |
1939 | 6,05°C |
2004 | 5,85°C |
1964 | 5,70°C |
1946 | 5,64°C |
1847 | 5,63°C |
1941 | 5,61°C |
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík fyrstu 10 mánuði ársins hefur ekki verið jafnhár síðan á sama tímabili 1941.