Skaftárhlaup í júní 2010
Hlaup hófst í Skaftá 20. júní 2010. Hlaupið kom úr vestari katlinum. Vitað var að nógu mikið vatn væri í báðum kötlum til þess að hlypi úr þeim. Líklegt var talið að um 100 Gl væru í þeim vestari.
Hlaupið úr vestari katlinum hafði staðið í rúma sjö daga þegar hlaup hófst úr þeim eystri sem er stærri. Þá voru liðnir 20 mánuðir síðan hljóp úr honum. Talið er að í hann safnist um 10 Gl á mánuði þannig að vatnsmagnið sem hlypi frá katlinum gæti orðið nálægt 200 Gl sem er heldur minna en að meðaltali frá þeim katli. Við hlaupvatnið bætist grunnrennsli sem fyrir er í ánni og í þetta sinn var hlaupi frá vestari katlinum ekki lokið.
Ljóst er að hámarksrennslið verður um 1400 m3/s við Sveinstind og telst það til þess mesta sem orðið hefur þar. Samanlagt vatnsmagn úr báðum kötlum jafnast á við stór hlaup úr þeim eystri.
Hámarksrennsli í fyrra hlaupinu varð 600 m3/s. Við það rennsli flæðir út úr farveginum og hækkar grunnvatn. Búast má við að þegar vatnið úr seinna hlaupinu skilar sér niður eftir, og leggst við það sem fyrir er, verði útbreiðsla jökulvatnsins utan farvega með mesta móti ef ekki sú mesta sem orðið hefur.