Eldgosið á Fimmvörðuhálsi
Upplýsingar um framvindu gossins og jarðhræringar í Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli verða framvegis birtar í hólfinu til hliðar við fréttir á forsíðu vefseturs Veðurstofunnar. Nýjum upplýsingum er bætt við eins fljótt og auðið er þegar einhverjar breytingar verða.
Greinin í heild verður á fróðleikssíðu um jarðskjálfta undir fyrirsögninni Eldvirkni.
Gosið, sem hófst á Fimmvörðuhálsi kl. 22:30-23:30 laugardaginn 20. mars, er á sprungu sem er um það bil 0,5 km löng og er í norðurhlíðum Fimmvörðuháls, austan við Eyjafjallajökul.
Undanfarnar þrjár vikur hefur verið mikil virkni í Eyjafjallajökli og hafa skjálftarnir flestir mælst á 7 - 10 kílómetra dýpi. Hinn 19. mars hófst innskotshrina til austurs þar sem skjálftarnir mældust á 4 - 7 kílómetra dýpi. Virknin færðist frekar austur á bóginn fram til laugardags og mældust nokkrir grunnir skjálftar þann dag.