Lægðir geta verið fallegar
Á hverjum degi eru teknar ótal myndir af jörðinni utan úr geimnum.
Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur í áratug rekið vefsetrið Earth Observatory þar sem birt er úrval af þeim myndum sem stofnunin aflar. Einnig er valin „mynd dagsins“ og kynnt sérstaklega. Síðast hlotnaðist Íslandi sá heiður í byrjun mars síðastliðinn.
Á tíu ára afmæli setursins fór fram samkeppni um hinar eftirminnilegustu af „myndum dagsins“ undanfarinn áratug og í tíunda sæti varð mynd frá hafsvæðinu sunnan við Ísland. Hún sýnir skýjasveipi samfara tveimur lægðum nærri landinu 20. nóvember 2006.
Austari lægðin var á ákveðinni hreyfingu til austurs eða austnorðausturs og hafði dýpkað ört daginn áður sunnan við Ísland. Hér er hún farin að grynnast. Vestari lægðin var hins vegar hægfara enda varð hún til í háloftalægðardragi í skjóli Grænlands. Daginn eftir var hún horfin, en austari lægðin var þá sprelllifandi þó farið væri að sjá á henni.