Kvikuhreyfingar við Álftadalsdyngju staðfestar
Jarðskjálftavirknin við Upptyppinga og Álftadalsdyngju hefur nú staðið yfir í rúmt ár. Virknin hófst við Upptyppinga en hefur nú færst austur undir Álftadalsdyngju.
Snemma gerðu vísindamenn sér grein fyrir að líklegt væri að kvikuhreyfingar fylgdu jarðskjálftavirkninni, en það hefur ekki verið hægt að staðfesta fyrr en nú með GPS-landmælingatækni.
Veðurstofa Íslands hefur rekið þrjár GPS stöðvar til símælinga á jarðskorpuhreyfingum vegna fyllingar Hálslóns síðan 2005. Frá því snemma sumars 2007 hafa tvær stöðvanna færst til suðurs um 2 sentímetra. Túlkun okkar á þeim hreyfingum var sú að líklegt væri að aukinn vökvaþrýstingur í misgengi í nágrenni stöðvanna sem teygir sig út í Hálslón væri að valda hreyfingunum.
Starfsmenn Veðurstofunnar fóru í lok febrúar að Álftadalsdyngju og endurmældu þar tvo mælipunkta í neti Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands (JH). JH veitti góðfúslega aðgang að eldri mælingum frá 2005, 2006 og 2007 og við samanburð kom í ljós að líklegast er að kvikusöfnun við Álftadalsdyngju valdi þeim færslum sem mælst hafa. Þar sem ekki var unnt að komast vestur fyrir Álftadalsdyngju vegna færðar er ekki vitað hversu langt vestur kvikusöfnunin nær.
Erfitt er að segja til um hversu líklegt er að þessi kvika ná upp til yfirborðs og kvikan gæti vel sest að í jarðskorpunni og storknað sem innskot. Veðurstofa Íslands fylgist eftir sem áður grannt með framvindu mála á þessu svæði.