,,Er hnatthlýnunin gabb?''
Margir áhorfendur þáttarins „Er hnatthlýnunin gabb?" („The Great Global Warming Swindle"), sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu á dögunum (19. júní 2007) eiga væntanlega erfitt með að átta sig á því hvort loftslagsbreytingar af mannavöldum séu ímyndun eða raunveruleiki.
Í myndinni er því haldið fram að loftslagsbreytingar ráðist nær eingöngu af breytingum í inngeislun sólar og að hlýnun, sem víða verður vart nú, sé ekki tengd umsvifum mannkynsins.
Veðurfræðingar og aðrir vísindamenn á sviði loftslagsrannsókna eru jafnframt ásakaðir um að falsa niðurstöður sínar og um að standa að samsæri - eða „gabbi" eins og segir í titli myndarinnar - um orsakir og mikilvægi loftslagsbreytinga. Í þessu sambandi er ástæða til þess að leggja áherslu á þrjú lykilatriði:
- Skýrar vísbendingar eru um óvenjuhraða hlýnun veðurfars síðustu ár og áratugi og mjög líklegt er að hún sé að hluta til af mannavöldum.
- Breytingar í sólgeislun á sama tímabili sýna enga samsvörun við hlýnunina.
- Í heimildarmyndinni eru dregin fram alvarlega gölluð gögn til stuðnings því sem þar er haldið fram.
Hér verða þessi atriði skýrð nánar og jafnframt nefnd nokkur dæmi um loftslagsbreytingar sem heimildir eru um í ískjörnum og varpa ljósi á eðli loftslagsbreytinga. Einnig er vísað í tvær greinar sem birtust í breskum dagblöðum í framhaldi af sýningu myndarinnar og í ýmsar upplýsingar sem birtar hafa verið á vefnum af sama tilefni til þess að gefa íslenskum áhorfendum innsýn í viðbrögðin sem myndin vakti þar í landi og annars staðar þar sem hún hefur verið sýnd.
Athafnir mannkyns og nýlegar loftslagsbreytingar
Röksemdir fyrir loftslagsbreytingum af mannavöldum er að finna í nýrri skýrslu Climate Change 2007: The Physical Basis - Summary for Policy Makers, sem rituð er af vinnuhópi I í milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Í skýrslunni kemur fram að hlýnun veðurfars sé óvefengjanleg og að þessi þróun sé mjög líklega af mannavöldum.
Skýrslan er áreiðanleg vegna þess að hún byggist á umfangsmiklu og vönduðu yfirliti um niðurstöður þúsunda vísindarannsókna sem farið hafa fram um heim allan og birtar hafa verið í vísindaritum.
Fulltrúar 113 þjóða, m.a. fulltrúar þjóða sem lýst hafa yfir efasemdum um loftslagsbreytingar af mannavöldum, hafa yfirfarið skýrsluna á gagnrýninn hátt og samþykkt niðurstöðurnar.
Aftur uppSkýra breytingar í geislun sólar hitasveiflur á jörðinni síðustu áratugina?
Umfjöllun um áhrif sólar á loftslag og umfjöllun um hlýnun undanfarinna ára og áratuga í heimildarmyndinni er mjög misvísandi og afbakar niðurstöður nýjustu rannsókna á þessu sviði.
Í skýrslu IPCC, sem fyrr var nefnd, er ályktað að breytingar í geislun sólar skýri aðeins ~5% af breytingum í geislunarjafnvægi jarðar sem áhrif hafa á loftslag síðan 1750 en þær stafa að mestu leyti af aukningu í styrk gróðurhúsalofttegunda (svo sem koltvísýringi, metani og köfnunarefnisoxíði).
Fjallað er um þetta atriði í greininni „The Real Global Warming Swindle" eftir Steve Connor í breska blaðinu Independent 14. mars 2007 og í grein frá 27. apríl 2007 á vef Háskólans í Osló sem reyndar er að hluta rituð af einum viðmælenda í myndinni.
Í síðari greininni kemur fram að höfundar heimildarmyndarinnar virðast hreinlega hafa búið til gögn sem eiga að sýna samspil hita og sólbletta. Í grein eftir George Monbiot í breska dagblaðinu Guardian 13. mars 2007 er lýst nánar hvernig farið er rangt með þessar og aðrar staðreyndir í sjónvarpsmyndinni og einnig má lesa gagnrýni á myndina á vefnum Real Climate en sá vefur er vettvangur fyrir margvíslegar umræður um loftslagsbreytingar.
Hluti af gagnrýni þeirra sem hér er vísað til á við fyrstu útgáfu myndarinnar sem sýnd var í Bretlandi í apríl síðastliðnum. Í framhaldi af þessari gagnrýni voru felldir burt nokkrir kaflar úr myndinni þar sem misfarið var með gögn á grófan hátt og skoðanir viðmælenda rangtúlkaðar.
Meginskilaboð og rökstuðningur myndarinnar er engu að síður sá sami eftir þessar breytingar og gagnrýni á fyrri útgáfuna á að flestu leyti einnig við þá síðari.
Aftur uppEr mæld hlýnun í ósamræmi við kenningar um vaxandi gróðurhúsaáhrif?
Í heimildarmyndinni er réttilega sagt að hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa eigi að ná til alls veðrahvolfsins - en svo nefna veðurfræðingar neðsta lag lofthjúpsins. Því er svo haldið fram að hlýnunin sé bundin við yfirborð jarðar og að mælingar, sem gerðar hafa verið með gervihnöttum, sýni að veðrahvolfið hafi ekki hlýnað nema niður undir yfirborði.
Einn viðmælenda segir reyndar að mælingarnar sýni frekar kólnun og bætir við að gögnin afsanni því kenninguna um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Hið rétta er að gervihnattamælingar sýna að hlýnunin er ekki einungis bundin við yfirborð jarðar heldur hefur allt veðrahvolfið hlýnað. Samantekt á þessum mælingum má lesa í þriðja kafla skýrslu vinnuhóps I í milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega kafla 3.4.
Reyndar sýna mælingar fyrir ofan veðrahvolfið að þar hefur kólnað á sama tíma og hlýnað hefur í veðrahvolfinu. Þetta er fullkomlega í samræmi við spár loftslagsfræðinga, spár sem gerðar voru fyrir nokkrum áratugum og hafa gengið eftir.
Aftur uppÍskjarnar og loftslagsbreytingar
Í heimildarmyndinni er því haldið fram að á ísöld hafi aukning á styrk CO2 komið á eftir en ekki undan hlýnun loftslags og því sé ekki orsakasamhengi milli breytinga í styrk CO2 og loftslagsbreytinga.
Þarna er verið að vitna í gögn sem fengust með borun ískjarna á Suðurskautslandinu, en kjarnar frá Vostok og Dome C spanna í sameiningu síðustu 650.000 árin (sjá 1. mynd).
Myndin sýnir að miklar sveiflur urðu bæði í hita og styrk CO2 milli jökulskeiða og hlýskeiða. Þegar loftslag er hlýtt er styrkur CO2 hár, þegar það er kalt er styrkur CO2 lægri.
Þegar jökulskeiðum lýkur (eins og gerðist fyrir 11.000 til 18.000 árum) hlýnar og nánast samtímis eykst styrkur CO2.
Nákvæm greining á þessum breytingum sýnir að innan þeirra óvissumarka sem eru á tímasetningu virðist hlýnunin vera nokkrum öldum á undan aukningunni í styrk CO2.
Þetta kemur ekki á óvart því lok jökulskeiða ráðast af breytingum í sumargeislun sólar á norðurhveli jarðar, en þær breytingar ráðast af sveiflum í möndulhalla jarðar og breytingum á sporbaug jarðar um sólu. Þessir þættir leiddu til hlýnunar sem síðan jók styrk CO2 í lofthjúpnum, m.a. vegna þess að hafið losaði CO2 í kjölfar hlýnunarinnar. Þessi aukning í styrk CO2 leiddi síðan til frekari hlýnunar og þannig koll af kolli.
Það samband CO2 og hita sem lesa má úr ískjarnanum er dæmi um magnandi ferli þar sem upphafleg lítil breyting á hita leiddi að lokum til mikilla loftslagsbreytinga.
Það kemur alls ekki á óvart að hiti og styrkur CO2 hafi hvoru tveggja aukist og að hlýnað hafi á undan breytingum í styrk CO2 þegar skiptust á ísaldir og hlýskeið síðustu nokkur hundruð þúsund árin.
Við núverandi aðstæður leiða athafnir manna hins vegar beint og milliliðalaust til aukningar á styrk CO2 og við erum nú farin sjá hlýnunina sem af því leiðir.
Samband hita og styrks CO2 á ísöldum rennir stoðum undir kenningar um hlýnun loftslags af mannavöldum en kippir ekki fótum undan þeim.
Er losun mannkyns á koltvísýringi óveruleg samanborðið við náttúruleg ferli?
Í myndinni er fullyrt að losun mannkyns á CO2 sé lítil í samanburði við náttúrulegt flæði CO2 milli andrúmslofts og heimshafa og að styrkur CO2 í andrúmsloftinu sé svo lítill að það geti ekki skipt máli þótt mannkynið bæti svolitlu við.
Fyrri fullyrðingin er misvísandi og sú síðari röng eins og útskýrt er í skýrslum IPCC en of langt mál er að skýra þessi atriði hér. Í fyrri útgáfu myndarinnar er jafnframt fullyrt að losun mannkyns á CO2 sé óveruleg samanborið við náttúrulega losun sem á sér stað í eldgosum.
Þessi fullyrðing er alröng eins og höfundum myndarinnar er orðið ljóst vegna þess að henni var sleppt í endurskoðuðu útgáfunni sem sýnd var hér í Ríkissjónvarpinu. Þar sem þessi fullyrðing kemur oft fram og tengist eldgosum sem standa Íslendingum nærri er rétt að hafa nokkur orð um þetta atriði.
Núverandi árleg losun CO2 af mannavöldum er um 100-föld sú losun sem verður vegna eldgosa. Jafnvel stórgos geta ekki breytt verulega styrk CO2 í lofthjúpnum, en sá styrkur hefur verið að aukast síðan á dögum iðnbyltingarinnar. Þetta má sjá á 2. mynd sem sýnir styrk CO2 í lofthjúpnum á síðasta árþúsundi.
Augljóst er að styrkurinn hefur aukist verulega á síðustu 200 árum og engar meiriháttar breytingar eru sjáanlegar í kjölfar eldgosa.
Aftur uppÓvönduð vinnubrögð
Meðal þeirra sem rætt var við í fyrri útgáfu myndarinnar var Carl Wunsch, virtur bandarískur haffræðingur. Wunsch hefur árum saman gagnrýnt hugmyndir um að loftslagsbreytingar valdi miklum breytingum á hafstraumum (stöðvun svonefndrar færibandshringrásar) og aðrar fullyrðingar sem hann telur ýktar.
Þessi gagnrýni hans hefur hinsvegar ekki snúið að kjarna þeirra fræða sem tengja loftslagsbreytingar við losun mannkynsins á koltvísýringi. Í myndinni voru ummæli hans tekin úr samhengi og sett þannig fram að hann kærði höfunda myndarinnar til bresku útvarpsréttarnefndarinnar (OFCOM) (sjá nánar).
Í endurskoðaðri útgáfu myndarinnar hefur viðtalið við Wunsch verið fellt burt en hann er nefndur til sögunnar hér vegna þess að á vefsíðu hans er að finna ýmsar upplýsingar um rangfærslur í myndinni, m.a. skeyti frá 37 vísindamönnum á sviði loftslagsrannsókna við ýmsa háskóla og rannsóknarstofnanir. Þar er vinnubrögðum við gerð myndarinnar mótmælt og vísað til greinargerðar frá einum vísindamannanna til bresku útvarpsréttarnefndarinnar þar sem lýst er sjö mjög misvísandi atriðum í umfjöllun myndarinnar.
Of langt mál er að tíunda og bera til baka allar ásakanir og langsóttar samsæriskenningar sem settar eru fram í myndinni. Hámarki nær þessi málflutningur líklega þegar því er haldið fram að Margret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, hafi nánast pantað kenninguna um hlýnun af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa í pólitískum tilgangi og borið fé á vísindamenn í Bretlandi í þessu skyni. Ekki er annað að sjá en að alvara liggi að baki þessari fullyrðingu af hálfu höfunda myndarinnar.
Þáttagerðarfólkið, sem ber ábyrgð á heimildarmyndinni, hefur orðið uppvíst að óvenjulega óvönduðum vinnubrögðum. Vísindamaður sem staðinn yrði að slíku framferði væri vafalaust talinn sekur um faglegt misferli.
Svo virðist sem misvísandi gagnameðhöndlun og tilhæfulausar ásakanir af þeim toga sem fram koma í myndinni eigi greiða leið að fjölmiðlum og þar með almenningi þrátt fyrir að vinnubrögðin séu með þessum hætti.
Ranghugmyndir og efasemdir um staðreyndir sem heimildarmyndin kemur á kreik eru hins vegar alvörumál og geta haft neikvæð áhrif á umræðu um þetta mikilvæga mál algerlega að tilefnislausu.
---
Upplýsingarnar sem hér koma fram eru að hluta byggðar á yfirlýsingu (BAS Statement about Channel 4 programme on Global Warming) sem Breska heimskautarannsóknastofnunin (British Antarctic Survey) sendi frá sér þegar heimildarmyndin var sýnd í bresku sjónvarpi.
Aftur upp