Þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi. Yfirlit og mat á kostnaði. Athugun gerð fyrir Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórnir á snjóflóðahættusvæðum |
Tómas Jóhannesson, Karstein Lied, Stefan Margreth, Frode Sandersen
VÍ-R96003-ÚR02;
nóvember 1996
Möguleikar á snjóflóðavörnum hafa verið athugaðir fyrir 8 sveitarfélög á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og gróft mat lagt á byggingarkostnað þeirra. Innan þessara sveitarfélaga eru stærstu þéttbýlissvæði þar sem hætta er á snjóflóðum hér á landi. Kostnaður við snjóflóðavarnirnar er borinn saman við verðmæti eigna á þeim svæðum sem varnirnar miðast við. Heildarkostnaður við varnartillögurnar er um 7 milljarðar kr. Verðmæti bygginga og annarra eigna á viðkomandi svæðum er víðast nokkrum sinnum hærra en áætlaður kostnaður við varnirnar.
Búast má við að kostnaður við styrkingu og varnir einstakra bygginga á svæðum, þar sem tillögur að vörnum eru ekki lagðar fram, geti orðið nokkur hundruð milljónir kr. Einnig má reikna með að kostnaður við snjóflóðavarnir í sveitarfélögum, sem ekki voru tekin fyrir í athuguninni, svo og kostnaður við krapa- og aurflóðavarnir, sem einungis var athugaður lauslega, geti numið nokkrum hundruðum milljóna kr. Kostnað við uppkaup eigna á svæðum þar sem snjóflóðavarnir eru ekki taldar koma til greina vegna erfiðra aðstæðna eða óhóflegs kostnaðar, er erfitt að meta. Hann er meðal annars háður lögum og reglugerðum um uppkaup eigna. Þessi kostnaður getur einnig numið allmörgum hundruðum milljóna kr. Þegar tillit er tekið til þessara viðbótarkostnaðarliða er niðurstaða skýrslunnar að heildarkostnaður við snjóflóðavarnir og uppkaup eigna hér á landi geti numið u.þ.b. 9 milljörðum kr. Kostnaðarmatið er allmikilli óvissu undirorpið, einkum vegna óvissu um umfang snjóflóðahættusvæða og óljósra hönnunarforsenda fyrir snjóflóðavarnarvirki. Einnig er óvissa í mati á varnarkostnaði á svæðum sem ekki voru skoðuð í athuguninni. Erfitt er að leggja formlegt mat á óvissuna en eðlilegt er að miða við að heildarkostnaðurinn geti numið á bilinu 7 til 14 milljörðum kr. þegar tillit er tekið til þessarar óvissu.
Snjóflóðahættu á svæðunum, sem tekin eru fyrir í skýrslunni, er lýst með svokölluðu "hættustigi". Það er annars vegar byggt á tíðni og stærð snjóflóða og hins vegar á fólksfjölda á svæðinu. Rúmlega helmingur heildarkostnaðar við snjóflóðavarnir, sem hér er fjallað um, svarar til svæða þar sem hættustigið gefur til kynna mesta snjóflóðahættu.
Beint efnahagslegt tjón af völdum snjóflóða í þéttbýli á Íslandi á tímabilinu frá 1974 til 1995, að meðtöldum kostnaði við uppkaup eigna og byggingu snjóflóðavarna, er um 3800 milljónir kr. Þá er meðtalinn kostnaður við flutning Súðavíkur, uppkaup eigna í Hnífsdal og áætlaður kostnaður við snjóflóðavarnargarða á Flateyri sem hafin er bygging á. Tjón af völdum snjóflóða utan þéttbýlis er hins vegar ekki talið með. Þar er um að ræða tjón á íbúðar- og útihúsum á sveitabæjum, sumarbústöðum, tjón á vegum úti, skemmdir á síma- og rafmagnslínum, skíðalyftum o.fl. Þetta tjón, sem fellur á allmarga mismunandi aðila, er umtalsvert. Engu að síður má gera ráð fyrir að það sé allmiklu minna en tjón af völdum snjóflóða á þorp og bæi á tímabilinu.
Alls hafa 52 farist í snjóflóðum á byggð ból á tímabilinu frá 1974 til 1995. Ef manntjón er talið með í efnahagslegu tjóni með sama hætti og í nýútkominni skýrslu um tjón af völdum umferðarslysa á Íslandi (100 milljónir kr. á hvern mann sem ferst af slysförum), þá er heildartjón af völdum snjóflóða á Íslandi á þessu 22 ára tímabili sambærilegt heildarkostnaði við snjóflóðavarnirnar sem lýst er í þessari skýrslu.
Til þess að bæta forsendur fyrir hönnun varnarvirkja er mikilvægt að ráðist verði í ýmsar rannsóknir á snjóflóðaaðstæðum hér á landi. Þar má nefna endurskoðun hættumats, reglulegar mælingar á snjósöfnun á upptakasvæðum, rannsóknir á virkni stíflumannvirkja og snjóflóðakeila, rannsóknir á eðliseiginleikum snævar hér á landi með tilliti til upptakastoðvirkja og athuganir á notagildi snjósöfnunargrinda á aðsópssvæðum.
Rétt er að undirstrika að stöðugt eftirlit með snjóflóðahættu er nauðsynlegt á öllum svæðum þar sem snjóflóð ógna byggð eða umferð. Aðstæður til byggingar snjóflóðavarnarvirkja eru stundum erfiðar vegna takmarkaðs rýmis fyrir stíflumannvirki eða óvissu um staðsetningu upptakasvæða þar sem reisa þarf upptakastoðvirki. Við slíkar aðstæður þarf að gera ráð fyrir stöðugu eftirliti með snjóflóðahættu og rýmingarviðbúnaði þegar snjóflóðahætta kemur upp. Stöðugt eftirlit er einnig nauðsynlegt þegar skilyrði til byggingar snjóflóðavarna eru góð. Fylgjast þarf með því hvort ófyrirséðar aðstæður séu að skapast þannig að hægt sé að grípa til ráðstafana í tíma til þess að tryggja öryggi íbúa á svæðinu.