Fréttir

Staðan við Fagradalsfjall

17.11.2021

Frá 18. september til dagsins í dag hefur ekki sést í hraunflæði frá gígnum í Fagrdalsfjalli. Enn mælist gas en í mjög litlu magni.

Samfara eldgosinu seig land umhverfis eldstöðvarnar líklega vegna kviku sem streymdi úr kvikugeymi. Í lok ágúst sást á GPS mælum að farið var að draga úr siginu og upp úr miðjum september var sigið farið að snúast í landris. Risið er mjög lítið eða einungis um 2 sm þar sem það er mest. Nýjustu gervitunglagögn sýna að landrisið nær norður af Keili suður fyrir gosstöðvarnar. Líkanreikningar benda til þess að upptök þess séu á miklu dýpi og er líklegasta skýringin talin vera kvikusöfnun.

Ekki er ólíklegt að kröftug jarðskjálftahrina sem hófst í lok september við suðurenda Keilis og stóð yfir í um mánuð, tengist landrisinu, þó engin aflögun á yfirborði hafi sést í tengslum við þá hrinu, sem væri merki um að kvika hafi færst nær yfirborðinu.

Hugsanlega atburðarrás sem gæti tekið ár eða áratugi

Ekki er óalgengt að kvikusöfnun eigi sér stað undir eldstöðvakerfum í kjölfar eldgosa. Þetta landris sem mælist nú þarf því ekki að vera vísbending um að kvika leiti til yfirborðs á næstunni og vel hugsanlegt að um sé að ræða atburðarás sem tekur ár eða áratugi, en erfitt er að spá fyrir um framvindu á þessu stigi.

Áfram verður fylgst náið með þróun mála við Fagradalsfjall.


Myndin sýnir tímaröð frá byrjun mars fyrir GPS stöðina FAFC við Fagradalsfjall (sjá staðsetningu á InSAR mynd hér að ofan). Á austur og lóðrétta þættinum sést sigmerki frá miðjum apríl fram í miðjan ágúst þ.e. færsla niður og til vesturs. Merkið er ekki eins skýrt á norðurþættnum en þó örlar á suðurfærslu. Þegar líður á ágúst byrjar að draga úr þessu merki og eftir miðjan september hefur orðið viðsnúningur. Sambærilegar breytingar sjást á flest öllum GPS stöðvum á Reykjanesiskaganum, þar sem sigmerki  samfara eldgosinu í Fagradalsfjalli hefur breyst í landris seinni hluta september. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica